Til baka.
Efnisyfirlit.
Birt í Morgunblaðinu
Fimmtudaginn 19. janúar, 2006 - Aðsent efni
Samsæri hér og samsæri þar.
Ingimundur Kjarval
EF ÉG bæri upp á einhvern að taka þátt í samsæri yrði neitun örugglega svarið þótt viðkomandi væri þátttakandi og þá jafnvel ómeðvitað, þá meðvirkur með því að leiða það hjá sér. Þolandinn í vanda, samsæri venjulega leynd og erfitt að skilja á milli nauðhyggju og veruleikans, heilbrigðast að vita ekki af því ef ekkert er hægt að gera, "paranoja" eða "ofsóknarbrjálæði" sú nauðhyggja sem flestir þurfa að ýta frá sér einhvern tímann á lífsleiðinni.
Í áraraðir sá ég samsæri í íslensku þjóðfélagi gegn fjölskyldu minni sem mótaði afstöðu mína til lífsins. Þegar ég byrjaði baráttu mína í erfðamáli afa míns breyttist þessi skoðun og ég þykist vita í dag að Íslendingar vilji að börn erfi foreldra sína, vilji að rétt sé rétt og rangt sagt rangt. Eingöngu valdið og hækjur þess sem er sama um slíka smámuni, fyrir því aðrir og "stærri" hagsmunir í húfi.
9. janúar síðastliðinn var frávísunarkröfu Reykjavíkurborgar í málsókn erfingja Jóhannesar Kjarval listmálara á hendur borginni hafnað í Héraðsdómi Reykjavíkur og þar með eiga réttarhöld að byrja núna seinni part vetrar. Fréttir um það í fjölmiðlum en ekki Morgunblaðinu sem ég þóttist vita fyrir, nauðhyggja eða ekki. Ég sannfærður um að Morgunblaðið eða þeir sem þar ráða séu höfuðpaurar í samsæri sem teygi sig áratugi aftur í síðustu öld.
Ég á því að áætlun hafi verið í gangi löngu fyrir lát afa míns að ná af honum eignum hans og þá sérstaklega listinni, hún talin eign þjóðarinnar vegna þess að Kjarval væri hennar og einu erfingjarnir tvö börn hans fædd og uppalin í Danmörku. Að faðir minn var íslenskur ríkisborgari, giftur íslenskri konu með íslensk börn, eyddi mestum hluta ævi sinnar heima og grafinn í Fossvoginum aukaatriði, margir héldu að pabbi væri óskilgetinn, vissu ekki að Kjarval var giftur sem fór lágt á Íslandi.
Í mínum huga nær þetta samsæri hámarki haustið 1975 þegar faðir minn hélt blaðamannafund á veitingastaðnum Naustinu (sem hann hannaði) og leitaði hjálpar fjölmiðla í málum föður síns en afi lést vorið 1972 eftir vist á geðdeild Borgarspítalans frá því í janúar 1969. Vinnustofa hans var tæmd í nóvember þann vetur. Lítið sem ekkert var birt næstu daga þótt allir fjölmiðlar mættu nema sem afskræming, pabbi rændur æru sinni að mínu mati.
Ég alla tíð síðan talið að þeirri aðför hafi verið stjórnað frá ritstjórnarskrifstofu Morgunblaðsins af Styrmi Gunnarssyni og Matthíasi Johannessen, þá ritstjórum blaðsins, og aðrir fjölmiðlar farið að óskum þeirra um enga umfjöllun, enda segir Styrmir í nýlegu viðtali að samstarf ritstjóra hinna ýmsu fjölmiðla hafi verið gott þessi ár. Jónas Kristjánsson var þá ritstjóri Dagblaðsins og eins og í dag barðist hann við sannleikann, ákvað að lóga honum þá fyrir valdið. Indriði G. Þorsteinsson var ritstjóri Tímans frá 1961 til 1972 og aftur 1982 til 1992. Indriði var skipaður framkvæmdastjóri þjóðhátíðarnefndar 1974 og Matthías Johannessen segir í grein um Indriða árið 2000 (árið sem Indriði lést) að samstarf þeirra hefði verið framúrskarandi þar. Árið 1976 semur Davíð Oddsson (Davíð þá í hússtjórn Kjarvalsstaða) við Indriða um að skrifa ævisögu Kjarvals. Ég sjálfur heyrði úr innsta hring Sjálfstæðisflokksins í kringum 1973 í boði á Kjarvalsstöðum að hörð barátta stæði um hvor ætti að fá þann "bitling", Matthías eða Indriði, auðséð að síðan var samið um það á æðstu stöðum. Indriði var síðan á launum við það verk í áraraðir en kom aldrei í verk að ræða við börn Kjarvals.
Ævisagan kom út nærri tíu árum síðar á hundrað ára afmæli afa. Bæði Matthías og Indriði voru síðan settir á heiðurslistamannalaun, í mínum huga pólitísk ákvörðun þegar ritstjórar eru settir á þá jötu. Í þessum pælingum er ég auðvitað að rýna í myrkrið, aldrei á skrifstofur Morgunblaðsins komið né verið fluga á þeim veggjum.
Svo þegar Morgunblaðið ákveður að hafa ekkert um höfnun Héraðsdóms tek ég því sem staðfestingu, staðfestingu á að Morgunblaðið og Sjálfstæðisflokkurinn séu í einni sæng, staðfestingu á að aðrir vegvísar en góður fréttaflutningur, réttlætið og sannleikurinn leiðbeini ritstjórn Morgunblaðsins.
Ég veit að blaðið getur ekki borið fyrir sig áhugaleysi, ef nafn afa er slegið inn á netið kemur upp óteljandi aragrúi greina, Morgunblaðið alltaf talið sig eiga sérstök ítök í Kjarval; Geir Hallgrímsson heitinn, fyrrverandi forsætisráðherra og einn eigenda blaðsins, borgarstjóri þegar vinnustofa afa var tæmd af borginni undir umsjá borgarstjóra. Í mínum huga var valdið þessi ár ein "garnaflækja" og erfitt að sjá hver var tengdur hvar og í hvorn endann. Eitt víst þó, allir tengdir í báða og fjölskylda mín máttvana gegn þeirri subbu.
Ég veit að Sjálfstæðisflokkurinn er stór og mörg herbergi í því húsi, ég veit að þar vita flestir lítið um þetta mál. En ég þykist einnig vita að þröng valdaklíka haldi þeim flokki í gíslingu og þeirri klíku mest málið að réttlætið nái aldrei fram að ganga í erfðamálum Jóhannesar Kjarval listmálara. En það er annarra að dæma hvort þessi sýn mín er órar eða ekki.
Höfundur er sonarsonur Jóhannesar Kjarval listmálara.