.
Til baka.
Efnisyfirlit hér.
To Index in English.
Þetta er samantekt og fer yfir helstu atriði þessa máls. Þetta var heilsíðuauglýsing í Dagblaðinu síðla vetrar 2004.
Delhi N.Y. í júní mánuði 2003.
Í þessari grein ætla ég að fara yfir erfðamál afa míns Jóhannesar Kjarval listmálara, en sumt af þessu hefur komið fram áður.
Árið 1968 var afi 83 ára, honum hafði hrakað og hélt mest til á Hótel Borg á kostnað Reykjavíkurborgar (hann var lagður inná geðdeild Borgarspítalans 28. Jan.1969). Afi var þá með vinnustofur í Sigtúni og undir risi í Austurstræti 12.
Um þessar mundir var mikil ásókn í afa, ég man til dæmis eftir biðröð fyrir utan vinnustofuna í Sigtúni af krökkum sem voru að sníkja af gamla manninum. Geir Hallgrímsson þáverandi Forsætisráðherra mynnist á þetta tímabil á fundi með Borgarstjóra (Davíð Oddssyni) árið1982 með þessum orðum (samkvæmt minnisblöðum Davíðs); "Nokkuð löngu áður höfðu vinir Kjarvals haft samband við Geir, m.a. þeir Alfreð Guðmundsson , Jón Þorsteinsson o.fl., og kvartað undan einsemd Kjarvals og sagt sér að menn færu til hans og notfærðu sér einsemd hans og væru að slá hann um fé og fjármuni. Hann mundi hvergi una sér nema á Hótel Borg, og þar bjó hann um allangt skeið á Borgarinnar kostnað".
Fleiri hlutir gerðust á þessum tíma, "útsölu listauppboð" og vinnustofurnar mikið til tæmdar. Halldór Kiljan lýsir einu slíku uppboði í ræðu sinni við opnun Kjarvalsstaða;" Skömmu fyrir lát Kjarvals höfðu einhverjir spaugarar komist yfir hátt á hundrað myndir meistarans og settu þær á axjón í Reykjavík þar sem þær fóru á verði sem aðeins þekktist á eldhúsdyralist".
Samband föður míns og afa hafði alltaf verið erfitt, en um þetta leiti fór allt úr böndunum og pabbi réð ekki við neitt. Bæði vegna þessa ástands og annarra erfiðleika (efnahagssamdráttur á Íslandi) brotnaði pabbi og hafði eins og kallað var í þá daga taugaáfall (í dag væri það líklega kallað þunglyndi). Móðir mín segir að atburðir í kringum Kjarvalshúsið á Seltjarnarnesi hafi verið honum erfiðastir.
Móðir mín gat útvegað pabba miða til systur hans í Danmörku. Hann fór út haustið 1968 og var þar næstum því fram að jólum, vinnandi á verkstæðinu hjá þeim hjónum. Þar braggaðist hann nokkuð, en ákvað að búsetu á Íslandi væri lokið og fjölskyldan ætti að flytja til Danmerkur.
Þetta haust, 7. Okt. eða 7. Nóv. hittust afi, Ólafur Þórðarson (systursonur Kjarvals), Alfreð Guðmundsson (náinn félagi afa í áratugi og síðar forstjóri Kjarvalsstaða) og Geir Hallgrímsson (þáverandi Borgarstjóri) á vinnustofu afa í Sigtúni. Þar er ákveðið að taka hluti úr vinnustofunni og setja í vörslu Reykjavíkur. Hvað fór á milli Geirs og afa veit enginn, engar skriflegar heimildir eru til nema þau skjöl sem ég ætla að fara yfir.
Fyrsta skjal: Langt handskrifað bréf frá Óla frænda uppá 6 síður, þar sem hann lýsir þessum atburði, dagsett 10. Okt. 1968. Hann sendir þetta bréf til föður míns í Danmörku og endar það á þessum orðum;"Og hvað þig snertir, þá álít ég að þú eigir að taka þessu með knúsandi ró, og þú mátt vera þakklátur að þurfa ekki að standa í því stranga stríði að vera í þessu umróti. Ég var dálitla stund að jafna mig (of langa) eftir fyrri daginn".
Annars staðar í bréfinu skrifar hann; "Áður en við fórum af vinnustofunni spurði Kj. mig hvernig mér litist á að biðja Borgarsafnið að geyma dótið. Ég hugsaði mig um, leit á hann og reyndi að reikna hann út og sagði, því ekki sortera í nýjar umbúðir og láta allt vestur í nýja húsið (Kjarvalshúsið úti á Seltjarnarnesi. Mitt innskot) á einn stað og taka svo upp seinna, nei, nei ég þoli það ekki, segir hann."
Annað skjal: Handskrifuð yfirlýsing Alfreðs Guðmundssonar dagsett 18. Sept. 1982, sem segir meðal annars; "Ég var viðstaddur 7. Nóv. 1968 í Sigtúni 7. þegar Jóh. S. Kjarval tilkynnti Geir Hallgrímssyni formlega um gjöf sína til Reykjavíkurborgar".
Geir skrifar enga slíka yfirlýsingu, en segir í fyrrnefndum minnisblöðum (fundinum á Borgarstjóraskrifstofu): "enginn vafi hafi verið á því í sínum huga að þar hafi verið um gjöf að ræða". Yfirlýsing Alfreðs er síðan lögð fram sem löglegt skjal árið 1982 eftir að fjölskyldan hafði beðið Baldur Guðlaugsson hrl. um að gera skýrslu um þetta mál sem síðan var lögð fyrir Borgarstjóra Davíð Oddsson (Ég hef ekki komist yfir þessa skýrslu).
Þriðja skjal: Einnig er lagt fram á sama tíma sem löglegt skjal, dagbókarbrot Guðmundar Alfreðssonar sonar Alfreðs Guðmundssonar sem segir meðal annars"7. Nóv 1968 fimmtudagur. Í dag kl. 14 afhenti Jóhannes Kjarval Geir Borgarstjóra að gjöf nokkra tugi teikninga ásamt gömlum kössum ofan af háalofti hjá sér, sem í eru bækur, blöð, flatkökur, ýmis skrif og riss". Guðmundur skrifar: "nokkra tugi teikninga", en þetta voru 153 kassar með yfir 5000 listaverkum.
Fjórða skjal: Listi sem var gerður á Borgarskjalasafni haustið 1968 upp á 47 Bls. Þar er skráður hver kassi og stutt lýsing á innihaldi, en tómir sígarettupakkar virðast fá nákvæmari lýsingu en listaverk. Engin sem ekki vissi, myndi gruna að í þessu voru fleiri en 5000 verk. Það virðist þó vera að hver einasta bók sé skráð(1124 bækur).
Elsta bókin "Travels in island of Iceland. Mackenze 1812 íb. Yngsta bókin, Brúðkaupsjóður, Sigfús Elíasson 1968, sérprentað. Einnig rauður kassi með tveimur handritum eftir Tove Kjarval fyrrverandi eiginkonu listamannsins "Tanker" ásamt bréfi dagsettu 9. Mars 1956, en amma lést 3. Mars 1958. Enginn mér vitandi í fjölskyldunni hefur séð þetta "dót" í heild sinni.
Til dæmis: Kassi númer 74. Silungsnet, færi, tjaldhælar, kork, baðskrúbbur, kertapakki, gömul jólakaka, sellófónþráður, skrúfjárn, sagarblað, skæri, hnífapör, múrskeið og fl.. Einnig: Kassi númer 137. Langur kassi með skissum, teikningum og málverkum upprúlluðum.
Í þessum lista er hvergi minnst á gjöf, og áfram heldur þessi listi kassa eftir kassa, en hvergi er minnst á einstaka teikningu eða málverk.
Fimmta skjal: Bréf frá Borgarskjalasafni til Kjarvals dagsett 10. Jan. 1969. (afi er lagður inn á sjúkrahús 28.jan.1969, vegna þess að hann var orðinn ósjálfbjarga andlega). Þar segir meðal annars: "Auk mín hafa aðeins tvær hreingerningarkonur farið í gegnum þetta dót og höfum við allar reynt að fara eins gætilega með það og okkur var unnt og forðast að hnýsast í sendibréf eða annað.
Þessu verki er nú lokið og sendi ég yður afrit af skrá þeirri, er ég gerði er ég gekk frá dótinu. Ég vona að þér við lestur þessarar skrár komist að raun um að öllu hefir verið til skila haldið eftir því sem unt var. Með virðingu og kærum kveðjum." Í þessu bréfi er hvergi minnst á gjöf.
Ég byrja svo mín afskipti um áramótin 2000, 2001 og hefur gengið hægt og sígandi. Hluturinn er að ég vissi ekki mikið um þetta mál, bæði er að fórnarlömbum finnst oft að það sé þeim að kenna ef níðst er á þeim og vilja ekki tala um það, og einnig, að ég er eitt af yngstu börnunum í fjölskyldunni af minni kynslóð. Móðir mín talaði þó stundum um þetta af vonlausri reiði, en við börnin vorum auðvitað á kafi í okkar lífi og hvorki gátum né vildum einbeita okkur að þessu skipsbroti fjölskyldunnar. Ég sagði tildæmis við móður mína fyrir mörgum árum að ég væri orðinn þreyttur á þessum aumingjasögum, henni til mikillar sorgar. Einnig var að systkini mín á Íslandi áttu sitt undir í Íslensku þjóðfélagi.
Það er ekki fyrr en ég gat raðað saman þessum skjölum að sannleikurinn kom fram í allri sinni dýrð. Síðan hef ég átt erfitt með að hemja skap mitt, hef ráðist á menn á Íslandi með orðum, eingöngu vegna þess að þeir voru Íslenskir.
Af gefnu tilefni vil ég taka fram að þegar þetta var fjarlægt úr vinnustofunni átti afi son á Íslandi, tengdadóttur og okkur barnabörnin sem öll höfðu lögheimili þar og voru Íslenskir ríkisborgarar. Ekkert samband var haft við fjölskylduna þegar þetta var fjarlægt.
Ég hef rætt þetta mál bæði hér í Bandaríkjunum, í Danmörku og á Íslandi, mismunur viðbragða er sláandi að mínum dómi. Hér er áhugi, en á Íslandi bregðast flestir við eins og þetta sé einhver synd í fjölskyldunni og því minna sem sagt er, því betra. Ef ég svo leita á um hvað þeim finnist, er farið undan í flæmingi eða byrjað að tala um að þetta sé vel varðveitt, fjölskyldan verði að hugsa um orðstír Kjarvals, eða að minnst er á að þessir menn hafi viljað vel.
Þar erum við komin að einum kjarnanum, hvað voru þeir að hugsa og hvað finnst ráðamönnum hjá Borginni um þetta mál í dag? Staðreyndin er að enginn getur sagt hvað þeir hugsuðu, heldur standa verkin eftir.
Í þjóðarvitund Íslendinga gaf afi þetta Íslensku þjóðinni, að Íslenskir valdamenn hafi gengið í að ræna gamalmenni og ástkærasta listamann þjóðarinnar eignum sínum, er eitthvað sem flestir eiga erfitt með að kyngja.
Það er þó staðreynd að þeir tóku þetta úr vinnustofu afa 1968 (tveimur mánuðum áður en hann er lagður inn á spítala) án þess að lýsa nokkru yfir opinberlega eða hafa samband við fjölskyldu listamannsins, það er ekki fyrr en 2.og 3. Nóv.1971 (stuttu áður en Kjarval deyr hann var þá út úr heiminum) að lítlar fréttir birtast í Morgunblaðinu um að afi hafi gefið "safn mynda" til Reykjavíkurborgar árið 1968. Þetta er fyrsta opinbera yfirlýsingin um þetta mál. Ekkert samband var þá haft við fjölskylduna mér vitandi.
Það er einnig staðreynd að hvergi er til gjafabréf eða nokkur yfirlýsing frá afa um að þetta hafi verið gjöf. Það er líka staðreynd að aldrei var talað eða samið við fjölskylduna um neitt.
Í dag vilja ráðamenn Reykjavíkurborgar ekki ræða þetta mál, Ingibjörg Sólrún Gísladóttir fyrrverandi Borgarstjóri svaraði aldrei boði frá mér um opinbera rannsókn.
Hjörleifur Kvaran Borgarlögmaður skrifaði til mín 22. Okt. 2001 meðal annars í stuttu bréfi eftir ítrekaðar fyrirspurnir frá mér:" Borgarlögmaður dregur ekki í efa eignarétt Reykjavíkurborgar á þessum verkum". Og í endann:" Af þessu tilefni skal upplýst að Reykjavíkurborg hefur fengið að gjöf fjölda listaverka frá ýmsum listamönnum innlendum sem erlendum og hafa listamennirnir ekki verið krafðir undirritaðar gjafayfirlýsingar við afhendingu listaverkanna. Slíkt hefur ekki þótt viðeigandi og þekki ég ekki önnur dæmi þess að brigður hafi verið bornar á eignarrétt Reykjavíkurborgar"
Eitt af fyrstu embættisverkum Þórólfar Árnasonar Borgarstjóra var að veita mér viðtal (mér hafði tekist að fá bréf til hans birt í Morgunblaðinu). Hann hlustaði síðan á mig af kurteisi og vinsemd í nokkrar mínútur á milli annarra embættisverka, án þess að lýsa nokkurri skoðun á málinu. Þegar þetta er skrifað hefur Reykjavíkurborg hvorki haft samband við mig né lögmenn fjölskyldunnar.
Ég hef leitað til fyrrverandi Dómsmálaráðherra og annarra ráðherra, Ríkislögreglustjóra, Ríkissaksóknara, Borgarráðs, Alþingismanna, Forsætisráðherra rithöfunda, sendiherra, Blaðamannafélags Íslands og ítrekað til fjölmiðla án nokkurs áhuga frá neinum.
Ég fékk þó skilaboð frá Davíð Oddssyni 20. Feb. 2003: "Forsætisráðherra bað mig að láta þig vita að hann hefði móttekið bréf þitt dags. 2 feb. 2003. Hvað varðar umbeðið viðtal telur Forsætisráðherra að ekkert nýtt hafi komið fram í þessu málefni frá því hann kannaði það árið 1982".
Frá Ríkislögreglustjóra dags. 22. Okt. 2002, meðal annars: " Yður tilkynnist að Ríkislögreglustjórinn sér ekki ástæðu til að hefja rannsókn í tilefni af bréfum yðar"
Og síðar vegna ítrekunar frá mér, í öðru bréfi dagsett 5. Des. 2002 meðal annars:
"Ástæða þess að kærunni var vísað frá eru eftirfarandi. Í fyrsta lagi er engan veginn ljóst hvað verið er að kæra og virðist sem kæranda sé það ekki ljóst sjálfum. Í öðru lagi er kæran órökstudd og fylgdi með henni bunki af sundurlausum gögnum sem kærandi hafði safnað saman af handahófi án þess að kæran vísi til ákveðna upplýsinga sem geti bent til refsiverðar hegðunar. Það er því ekki forsvaranlegur grunnur til að hefja opinbera rannsókn enda skortir að fyrir hendi sé rökstuddur grunur. Í þriðja lagi væru brot þau sem kynnu að vera gegn XXVI. Kafla almennra hegningarlaga nr. 19 1940, löngu fyrnd sbr. 3. tölulið 1. mgr. 81. gr. almennra hegningarlaga.
Skráning í málaskrá er nú lokið og hlaut kæran málnr. 006-2002-113. Kæran
Í málinu var ekki skráð fyrr vegna þess að óljóst var hvernig með hana skyldi fara enda óljóst hvert Ingimundur var að fara með skrifum sínum."
Mér brá og sárnaði viðbrögð Ríkislögreglustjóra og Ríkissaksóknara, hafði gengið út frá að það væri þeirra að skilgreina hvað væri lögbrot og hvað ekki. Hvað varðar yfirlýsingu Helga Magnúsar Gunnarssonar lögl. Fulltr. um "bunka af sundurlausum gögnum", vil ég taka fram að ég hafði fengið hrós frá Íslenskum lögmanni vegna frágangs míns á þessum skjölum, og hvað varðar að kæran hafi ekki verið skráð vegna þess að "óljóst hvert Ingimundur var að fara með skrifum sínum", lýsi ég skilningsleysi mínu á þeirri yfirlýsingu, ég hafði sérstaklega tekið fram að ég gæti sent þeim fleiri skjöl og komið til Íslands með stuttum fyrirvara til viðræðna, ef þyrfti.
Hvorki Ríkissaksóknaraembættið né Ríkislögreglustjóraembættið höfðu nokkurn tímann samband við mig utan þeirra bréfa sem ég vitnaði í. Að mínum dómi hafa þessi embætti brugðist sínu hlutverki, nema að þau hafi fundið nýjan tilgang í nútímanum að elta niður pólitíska andstæðinga.
Ég skrifaði Eiríki Þorlákssyni forstjóra Kjarvalsstaða með beiðni um að hann kynnti sér þetta mál og lýsti skoðun sinni opinberlega, einnig bað ég hann um, að öllum tilvísunum um að þetta hefði verið gjöf yrðu fjarlægðar á Kjarvalsstöðum, það ylli fjölskyldunni sorg og sársauka. Þegar þetta er skrifað hafa engar tilvísanir um að þetta hafi verið gjöf verið fjarlægðar, mér vitandi.
Ég vil taka fram að ég virði Eirík fyrir að hafa svarað mér þó mér finnist niðurstaða hans algjörlega óskiljanleg og að hann hafi snúist undan ábirgð sem er hans að mínum dómi. Ég höfðaði einnig til einstakra starfsmanna á Kjarvalsstöðum að þeir tækju afstöðu, og lýsti þeirri skoðun minni að þeir væru ábirgir, hver fyrir sig, fyrir því sem þeir gerðu eða ynnu á "þessari svokallaðri gjöf". Eiríkur Þorláksson skrifar þess vegna meðal annars, dagsett 23. Des. 2002.; "Ég hlít sjálfur að axla þá ábirgð sem fylgir því að vinna með verk og heimildir í Kjarvalssafninu, bæði það sem kom til borgarinnar 1968 og annað efni og mín afstaða og vinna hlýtur að mótast af þeirri sýn sem Reykjavíkurborg hefur í málinu hverju sinni. Það er ekki hægt að ætla öðru starfsfólki að taka afstöðu til mismunandi skoðana í þessu öllu í vinnu sinni í safninu (hvað sem þeim kann að finnast persónulega)"
Ég skrifaði Baldri Guðlaugssyni ráðuneytisstjóra til að fá skýrsluna sem hann gerði um þetta mál. Eftir ítrekaðar fyrirspurnir svaraði hann í bréfi dagsettu 7. Sept. 2001, meðal annars:" Ákvarðanir um hagnýtingu og birtingu lögfræðilegra greinargerða sem Íslenskir lögmenn semja fyrir aðra aðila eru alfarið í höndum viðkomandi aðila en ekki lögmannanna sjálfra. Ég gæti því ekki látið yður í té umrædda greinagerð, þótt ég hefði hana í mínum vörslum, en svo vill reyndar til að ég hef hana ekki lengur undir höndum." Þegar ég skrifaði Baldri aftur um að ég væri einn af þessum skjólstæðingum, einnig að ég hefði umboð frá Ásu dóttur listamannsins og ég teldi að fjölskyldan hefði aldrei fengið þessa skýrslu, því að ef svo væri hefði ég fundið hana, engu virðist hafa verið hent í sambandi við þetta mál, svaraði Baldur mér ekki þrátt fyrir mörg ítrekunarbréf. Ég tel ábirgð Baldurs í þessu máli þunga.
Ég vil minnast á atriði sem hefur komið upp. "Að fjölskyldan hafi ekki fylgt þessu eftir í gegnum árin". Í því sambandi vil ég vitna í samningsuppdrag sem faðir minn gerði og sendi Herði Ólafssyni hrl. einhvern tímann fyrir 2. Feb. 1973 (innan árs frá láti föður hans), en faðir minn hafði ráðið Hörð til að sjá um þessi mál. Orðrétt:
3. grein.
Málverk, teikningar og skissur sem fyrirfannst á vinnustofu faðir okkar Jóhannes Sveinsson Kjarval er eign börn listamannsins eða afkomandir þeirra, sem Kjarvalsafnið skal á hverjum tíma hafa forkaupsrétt af þeim málverkum teikningum eða skissum." Þessi samningsuppdrög eru mjög ítarleg (13 bls) og fjalla um áhuga barna listamannsins um að hlutir úr vinnustofunni yrðu varðveittir á Kjarvalsstöðum, þau höfðu í hyggju að gefa alla persónulega muni, bréf og annað. Þó svo að málið sé bjagað hjá pabba getur enginn efast um hvað hann hefur í huga. Þessi samningsuppdrög eru handskrifuð af föður mínum. Hve langt Hörður fór með þetta veit ég ekki. Það eru mörg fleiri skjöl í gegnum árin: umboð til Íslenskra og Danskra lögmanna, bréf frá föður mínum um þetta mál, blaðamannafundur haustið 1975 og fl. en faðir minn lést árið 1981.
Einnig: Faðir minn skrifar bróðir mínum Jóhannesi 28. Des. 1976 til að tilkynna honum að þau systkinin hefðu ráðið Ragnar Ólafsson hrl. til að reka þetta mál á Íslandi. Faðir minn skrifar um hvað líf þeirra sé erfitt í Danmörku og um baráttuna við að bjarga sér frá degi til dags og að taugarnar séu ekki góðar. Hann skrifar um hroka aðila hjá Reykjavíkurborg og minnist á áhyggjur fjölskyldunnar um að það gæti orðið erfitt fyrir bróðir minn á Íslandi ef þessu máli yrði hreift. Með bréfinu fylgir skýrsla um þetta mál frá pabba. Hann endar skýrsluna með þessum orðum " Þar að auki eru í þessu teikningar, skissur og fleira uppá milljónir sem okkur finnst að tilheyri okkur. Faðir minn gaf nóg meðan hann lifði."
Hversvegna málið komst ekkert hjá Ragnari Ólafssyni hrl veit ég ekki, það má vera að Ásu og Pabba hafi skort fé, en innan fjölskyldunnar er sú skoðun, að ósýnileg hönd hafi alltaf kæft alla viðleitni í þessu máli á Íslandi. Í bréfi frá Niels Klerk (Dönskum hæstaréttarlögmanni) til Ragnars Aðalsteinssonar hrl. dagsettu 14. Feb. 1978 er minnst á "fleiri vandamál" í sambandi við erfðamál barna Jóhannesar Kjarval, en hvað annað fór á milli Ragnars Aðalsteinssonar hrl. og Klerks hrl.veit ég ekki (Ragnar hefur ekki svarað fyrirspurnum mínum).
Fjölskyldumeðlimir hafa sagt mér að Klerk hafi sagt þeim að hann hefði rekist á "steinvegg" á Íslandi í þessu máli. Ef ég veit rétt, lést Niels Klerk hrl.um þetta leiti. Ég gæti síðan rekið vanmáttugar tilraunir fjölskyldunnar í gegnum árin en sleppi að sinni. Þegar fulltrúi Ríkislögreglustjóra minnist á "sundurlaus skjöl" ætti hann að hafa í huga að þetta mál hefur dregist í meira en aldarfjórðung og óteljandi aðilar komið að því!
Ég vil eyða örfáum orðum á blaðamannafundinn sem faðir minn hélt í Naustinu haustið 1975 og flestir fjölmiðlar mættu á. Þar kvartaði faðir minn sáran yfir því hvernig yfirvöld hefðu farið með hann á Íslandi: Kjarvalshúsið á Seltjarnanesi, Austurstræti 12, muni föður hans á vergangi og þetta mál. Engin þeirra fjölmiðla minntist á neitt af þessu og það eina sem var birt afskræming á föður mínum. Íslenskir fjölmiðlar rændu föður minn í raun ærunni þetta haust. Ég hef skrifað Blaðamannafélagi Íslands og beðið það um að fjalla um þetta mál. Þeir hafa ekki svarað mér, sem eru viðbrögð margra á Íslandi í þessu máli, virtust nokkuð öruggir að það væri hægt að hundsa fjölskylduna eins og hingað til og Ísland í raun ekki réttarríki né land frjálsra fjölmiðla. Það er hægt að nálgast segulbandsspólur af þessum fundi bæði hjá Blaðamannafélagi Íslands og á Kjarvalsstöðum, einnig voru afskrif send til flestra fjölmiðla.
Ég vil fara yfir eitt atriði í endann, ótta fjölskyldunnar um að það myndi fara illa fyrir henni ef eitthvað yrði gert, hvort sem sá ótti var ímyndaður eða ekki. Móðir mín bað mig grátandi að hreyfa ekki við þessu máli vegna þess að það yrði ólifandi fyrir börn hennar á Íslandi (móðir mín er 86 ára, og býr í "útlegð" í Danmörku). Bandarískur lögmaður sem hefur verið mér til ráðgjafar (Bruce Mckeegan) lýsti yfir létti þegar hann sá mig eftir eina ferðina til Íslands, sagðist hafa haft áhyggjur af að ég væri í Reykjavíkurhöfn í sérsmíðuðum sementsskóm. Ég reyndi að skýra fyrir honum að Ísland væri land laga og reglna, þar sem fólk væri ekki hrætt um líf sitt.
Ef einhverjum á Íslandi finnst þessi ótti hlægilegur vil ég minna á hluti sem gerðust nýlega; Forsætisráðherra ásakar stærsta fyrirtæki á Íslandi um að hafa reynt að múta sér, það finnast skjöl í Búnaðarbankanum um samsæri að koma Íslensku fjölmiðlafyrirtæki fyrir kattarnef og það streyma hundruð milljóna úr ríkisfyrirtæki og eingöngu fyrir slysni að það verður opinbert. Þetta eru þrjár blákaldar staðreyndir og ekki kjaftasögur af kaffihúsum, svo ef máttvana fjölskylda finnur til ótta, skyldi enginn vera hissa.
Ótta er auðvitað erfitt að skilgreina, það eina sem ég veit er hvernig mér leið þegar ég byrjaði á þessu máli, en ég mun halda fram að óttinn hafi verið sterkur áhrifavaldur í þessu máli allt frá byrjun, allir ættu að hafa í huga hve háttsettir margir voru og eru í þjóðfélaginu sem komu nálægt þessu máli. Núna eru fáar tilfinningar eftir hjá mér nema reiðin, vonska útí tvöfeldni Íslenskra ráðamanna, illska út í Íslenska fjölmiðla sem skrifa upp og niður síður um hvað þeir eru frjálsir meðan þeir liggja á fréttum og sárindi út í þá Íslendinga sem finnst að þjóðin eigi þetta og fjölskyldan sé eingöngu með frekju.
Ég er ekki sami maðurinn í dag og ég var þegar ég byrjaði á þessu, þá trúði ég á hluti sem ég geri ekki í dag. Það er skiljanlegt að fyrstu viðbrögð manna séu: að auðvitað hafi afi gefið þetta og hjá mér ráði græðgin, en í mínum huga er hver sá sem kynnir sér þetta mál og breytir ekki um skoðun þjófur í hjarta sínu. Ekkert getur breitt þeim sannleika að eignarétturinn er einn af hornsteinum réttaríkisins Ísland og að þessu var stolið, hvort sem að þjófnaðurinn fór fram 1968 þegar þetta var tekið, 1971 þegar lítil frétt birtist í Morgunblaðinu um að afi hefði gefið hluti til Reykjavíkurborgar eða 1982 þegar þetta mál er kæft með valdaníðslu að mínum dómi.
Ég hef reynt að fara yfir helstu þætti þessa máls án þess að gera þetta of langt. Ef ég hef sleppt einhverju sem skiptir máli bið ég fyrirgefningar og vona að geta leiðrétt það seinna. Einnig reyndi ég að vitna í viðkomandi án þess að taka hluti úr samhengi. Ef einhverjum finnst á sig hallað mun ég reyna að fá það birt í heild sinni.
Ég hef verið ásakaður um að fara offari, ég sitji í launsátri í uppsveitum NewYork, skjótandi á menn og noti stór orð. En enginn getur borið á mig að ég hafi ekki reynt að kynna þetta fyrir ráðamönnum og þjóðinni þó svo að fjölmiðlar hafi sýnt þessu lýtin sem engan áhuga. Í mínum huga er þetta stórmál fyrir Íslensku þjóðina og eitthvað sem á eftir að spyrjast út um heim, allir ættu að muna að Jóhannes Kjarval listmálari var einn af stærstu persónum Íslands síns tíma, sæmdur Stórriddarakrossinum, átti hjarta þjóðarinnar og bar hróður landsins vítt og breitt, það er óhæfa að þetta mál skuli hafa dregist öll þessi ár.
Sanngjarnar manneskjur hljóta að viðurkenna að það sé réttnæmt að fjölskyldan fái tækifæri til að koma þessu fyrir dómstóla. Ekkert getur bætt þann skaða og sorg sem þetta mál hefur valdið í minni fjölskyldu, en við skulum vona að réttlætið og sannleikurinn vinni í endann.
Ingimundur Kjarval
Eftirmáli. 15. Jan. 2004.
Ég vann að þessari grein eða bréfi í júní mánuði meðan aðrir bændur stunduðu sinn heyskap. Þegar ég var ánægður með skrifin sendi ég það til lögmannsins og fjölskyldu, bæði á Íslandi og í Danmörku. Síðan, eftir að hafa sofið á því var öllu breitt og út mánuðinn hurfu kaflar og aðrir fæddust.
Í endann var litlu hægt að breyta og ég vildi birta þetta seinast í júní, en lögmaðurinn bað um frest á meðan hann gengi frá hlutum, þó svo að hann tæki sérstaklega fram að hann hvorki gæti né vildi setja sig á móti birtingu.
Þannig stóðu málin, en það virtist að þessi skrif mín hefðu komið fjölskyldunni á hreyfing, systkini mín (þau sem búa á Íslandi) ákváðu að halda fund með áðurnefndum lögmanni, og þess vegna viðbótin.
Þessi fundur var haldinn 3. Júlí. 2003. Þau komu með skjal (með öðrum skjölum) með sér sem þau töldu vera skýrslu eða álitsgerð Baldurs Guðlaugssonar hrl. um erfðarmál Jóhannesar Kjarval listmálara gerða haustið 1982 og sem minnst er á í minnisblöðum Davíðs Oddssonar af fundinum í Borgarstjóraskrifstofu 5. ágúst 1982 (en þetta skjal er þó dagsett eftir þann fund þar sem skýrsla Baldurs er rædd og er merkt "trúnaðarmál", að segja að þetta skjal sé undarlegt er vægt til orða tekið).
Ég hef verið á þeirri skoðun lengi að mannréttindi hafi verið brotin á fjölskyldu minni af Íslenskum ráðamönnum haustið 1982, og að þetta skjal sé þyngsti hlekkurinn í að sanna það. Í þessari skýrslu Baldurs er minnst á dagbækur og minnispunkta Ólafs Þórðarsonar frænda. Ég hafði síðan samband við son Óla sem kom þessu til lögmannsins. Samkvæmt þessum minnispunktum virðist Geir Hallgrímsson hafa komið á vinnustofu afa 7. Nóv. 1968, en þetta á vonandi eftir að skýrast. Þessi skýrsla Baldurs er endanlega lykillinn að því að skilja hvað gerðist í þessu máli haustið 1982.
Mörg atriði eru ekki á hreinu ennþá, eins og að Steinunn Bjarman skrifar í skýrslu sinni (gerða 12. Mars 1987 handa Davíð Oddssyni þáverandi Borgarstjóra)) að hún hafi byrjað að taka upp úr þessum kössum 6. Nóv. 1968, degi fyrir 7. Nóv. og samkvæmt dagbók Guðmundar Alfreðssonar er verið að ferja teikningar niður á Borgastjóraskrifstofu 20. Okt. 1968 eða nokkrum vikum áður en Geir átti að hafa verið á vinnustofu afa.
Ég fékk bréf frá Ragnari Aðalsteinssyni hrl. 30. Des. 2003, þar sem hann skrifar meðal annars: "Nú er langt um liðið síðan ég fékkst við athugun á málum varðandi Jóhannes Kjarval að beiðni föður þíns og því erfitt fyrir mig að henda reiður á samskiptum mínum og föður þíns í einstökum atriðum.", og seinna:" Þó man ég að athugun mín sneri einkum að útgáfu Ragnars Jónssonar eða fyrirtæki hans á endurprentunum á málverkum J.Kjarval. Ég minnist þess ekki að ég hafi verið beðinn um að athuga ráðstafanir á verkum J. Kjarval til Reykjavíkurborgar", og í endann:"Gögn um þessa athugun hafa ekki verið varðveitt".
Ég hef enga ástæðu til að efast um þær skýringar, en um leið vil ég taka fram að ég tel að þrjár stéttir á Íslandi beri höfuð ábirgð á hvernig fór: lögmenn, fjölmiðlamenn og stjórnmálamenn. Þetta skýrir þó ekki bréfaviðskipti Ragnars og Klerks, Danska lögmannsins sem fjölskyldan hafði ráðið.
Að skjöl hafi ekki verið varðveitt, er eitthvað sem ég veit ekki nóg um eða hver venja eða skylda lögmanna til að geyma skjöl er. Það er eitthvað sem ég vildi afla meiri vitneskju um, það var endanlega fyrir slysni að skýrsla Baldurs Guðlaugssonar hrl. fannst, en hann tilkynnti mér að hann hefði hana ekki lengur sem var mér mikið undrunarefni, hafði gengið út frá því að lögmenn geymdu skjöl sem skiptu máli. Eins og ég skrifaði áður er þessi skýrsla merkt trúnaðarmál, hversvegna veit ég ekki en mér skilst að fjölskyldan hafi komist yfir hana í gegnum krókaleiðir.
Eitt atriði í lokin, ótta fjölskyldunnar um að illa myndi fara fyrir henni. Þegar ég skrifaði þetta í sumar virtist enginn á Íslandi vita af þessum ótta, þegar ég minntist á hann var skilningsleysið einu viðbrögðin. Núna virðist vera að óttinn sé orðin ein af staðreyndum Íslensks þjóðlífs
Það er auðvelt fyrir mig að tala digurbarkalega hér í Bandaríkjunum, annað með fjölskyldu mína á Íslandi. Getur verið að viss villimennska sé enn við lýði á Íslandi, að fólk hafi ástæðu til að óttast öfl sem geti sett viðkomandi út af sakramentinu ef það hagar sér ekki, manneskjur geti misst vinnu eða aðrar fyrirgreiðslur í þjóðfélaginu?
Síðan ég skrifaði þessa grein hafa hlutirnir dregist þangað við erum komin inn í nýtt ár. Núna eru meira en þrjú ár síðan ég byrjaði á þessu máli, en við skulum vona að hlutirnir séu að komast í gang.
Aftur á upphafssíðu.